Mikil úrkoma hefur verið á norðanverðu landinu um helgina og hafa skriður fallið í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit. Tólf bæir voru rýmdir um helgina og áfram verður rýming í gildi á svæðinu þar til Almannavarnir endurmeta stöðuna síðar í dag. En hvernig stendur á því að fjöll fara svona á flot og svo á skrið? Það hefur með vatn að gera, vitum við, en það er ýmislegt fleira þarna á ferli. Við ætlum að fá jarðfræðing til að útskýra það betur fyrir okkur, sá heitir Þorsteinn Sæmundsson. Sambúð ungs manns og refs í miðborg Reykjavíkur hefur vakið athygli undanfarið. Ungi maðurinn segist halda refinn heima hjá sér og birtir t.d. myndir á samfélagsmiðlum af gönguferðum og annarri skemmtun refsins. Matvælastofnun hefur gert athugasemdir við athæfið og hefur ásamt Húsdýragarðinum hvatt manninn til að láta dýrið í hendurnar á sérfræðingum þar, enda eigi villt dýr ekki heima í híbýlum fólks, heldur í náttúrunni eða í umsjón þeirra sem kunna að fara með villt dýr. Maðurinn hefur neitað að láta frá sér dýrið. Við fórum í Húsdýragarðinn í morgun og hittum þar Þorkel Heiðarsson, deildarstjóra, sem hefur umsjón með dýraþjónustunni. Við setjumst svo niður með tveimur ungum manneskjum sem eru loftslagsleiðtogar og fóru á námskeið til þess; útivistar og fræðslunámskeið ætlað ungu fólki sem vill láta til sín taka með beinum og óbeinum aðgerðum í baráttunni við loftslagsvána. Ræðum við Ísak Ólafsson og Alexöndru Kristjánsdóttur.
↧