Samfélagið sendi beint út frá Skarfakletti í Reykjavík. Hafdís Hrund Gísladóttir gufubaðseigandi: Hafdís á og rekur fargufuna svokölluðu, færanlegt hjólhýsi með innbyggðri gufu. Samfélagið hitti á Hafdísi við Skarfaklett þar sem hún var að klára gufubaðstíma með hópi fólks. Rætt við Hafdísi um gufu, afhverju hún velur svo oft að vera við Skarfaklett og um þara - en hann lætur hún gufubaðsgesti bæði smakka á og bera á sig. Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Veitna: Viðgerðir á skolphreinsistöð gera það að verkum að óhreinsað skolpvatn mun flæða frá höfuðborgarsvæðinu norðanfrá í Faxaflóa. Af þeim sökum er ekki ráðlagt að stunda sjóböð eða týna þara næstu vikurnar. Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar: Hampiðjan starfar út um allan heim, hannar og selur veiðarfæri. Rætt við Hjört um nýsköpun, áskoranir í umhverfisverndarmálum og framþróun fyrirtækisins. Auðunn Kristinsson Landhelgisgæslunni: Varðskipið Ægir liggur við höfn rétt hjá Skarfakletti, hann er til sölu og verður líklega settur í brotajárn. Farið yfir ævi þessa gamla jálks, frækna sigra og fjallað um arftakann Freyju sem er væntanleg í heimahöfn sína í Siglufirði í byrjun næsta mánaðar.
↧